Hundafólk notar á stundum hljóðlausar flautur, því nærstaddir halda þá gjarna að hundurinn sé svo vel þjálfaður að einungis þurfi örlitlar hreyfingar eigandans til að stýra hundinum í fjarlægð. Ókosturinn við hljóðlausar flautur er að maður heyrir ógreinilega merkjagjöfina og á því erfitt með að meta hana sjálfur.
Að skamma eða refsa hundi
+Þjálfun rjúpnahunds hefur það markmið, er aga og aðlaga veiðihæfni hans að veiðum með okkur. Ef við segjum NEI, þá ætlumst við til að hann hætti einhverju óæskilegu og þá verðum við að grípa í hnakkadrambið á honum, hrista hann ærlega til eða lyfta honum upp á hnakkadrambinu, ef hann þráast við og hættir ekki. Við fylgjum eftir skipun og notum við það sömu aðferð og tíkin gerði í hvolpakassanum, sem reyndar er sama aðferð úlfynjur nota við að aga ylfinga sína, þ.e. við tökum í hnakkadrambið á hundinum.
Ef þú missir stjórn á skapi þínu þegar hundurinn óhlýðnast, beitir valdi og refsar honum vegna smárra yfirsjóna, þá missirðu strax öll tök á þjálfuninni. Þú átt örugglega eftir að upplifa það að verða reiður vegna óhlýðni og algers skilningsleysis hundsins á skipunum þínum. Í upphafi kröfuharðrar þjálfunar skaltu því hugleiða, hvernig þú vilt bregðast við slíkum uppákomum, það verður þá auðveldara að taka þig sjálfan í hnakkadrambið þegar á reynir. Við erfiðar aðstæður, þegar skapið er að bresta þá skaltu draga andann djúpt og telja upp að tíu áður en þú aðhefst eitthvað, en umfram allt skaltu leita leiða til að hætta þjálfuninni á glaðlegan og jákvæðan hátt. Á heimleið úr þjálfuninni, er svo oft gott að tala við hundinn um vandamálin, skýra honum frá því til hvers þú ætlast og hvað hann gerir vitlaust o.s.frv. Ræddu málin við hann, þið finnið örugglega leið því báðir viljið þið ná árangri. Byrjaðu svo þjálfunina næst á þeim þáttum sem hundurinn kann örugglega.
Refsing við óhlýðni má aldrei verða ríkjandi í þjálfun hunda, en þú verður að framfylgja skipunum og ef þörf krefur þá verður þú að refsa fyrir óhlýðni. Ef þú þarft að refsa vegna óhlýðni, þá verður þú að gera það strax við óhlýðnina, en þá og því aðeins kemur refsing til greina ef hundurinn veit af hverju honum er refsað og það sérð þú sjálfur á hundinum þínum.
Mjög árangursrík aðferð til að refsa hundi sem allt í einu hundsar allt sem hann kann og getur, er að taka hann í taum, lesa yfir honum, arka með hann að bílnum og setja hann þar aftur í, en fara síðan sjálfur í göngutúr á æfingarsvæðinu. Hundum sem finnst svo óendanlega gaman að vera úti með þér, jafnvel við stífa grunnþjálfun, lærist ótrúlega fljótt að haga sér vel í kjölfar slíkrar refsingar.
Hafðu svo ævinlega hugfast, að hundaþjálfun miðar að því með markvissri, jákvæðri og ákveðinni leiðbeiningu, að tryggja að refsinga sé sem sjaldnast þörf.
Skipanir Þegar tímar líða fram mun hundurinn þinn þekkja fjölda orða og bregðast rétt við fjölda skipanna. Fyrir rjúpnahunda eru það þó einungis fjórar skipanir sem skipta öllu máli og þeim verða hundarnir undantekningarlaust að hlýða ósjálfrátt.
Skipun - Merking skipunar – Flautumerki
Sitt / Ligg (Sestu / Leggstu) - Sestu samstundis / Leggstu samstundis [Mismunandi er hvort veiðimenn vilja að hundurinn setjist eða leggist, þegar fugl flýgur upp.] - Eitt langt dómaraflaut. (dirrr)
Kom (Komdu) - Komdu samstundis til mín (hundurinn á að koma upp að hægri hlið eigandans). - Tvö stutt flaut (píp píp)
Stand - Stattu grafkyrr.
Nei - Hættu samstundis því sem þú ert að gera. NEI, er skipun sem hundurinn hefur örugglega kynnst hjá ræktanda sínum. Jafnframt er það sú skipun sem þú byrjar á að kenna honum þegar hann kemur heim til þín. Þegar þú byrjar markvissa grunnþjálfun, skerpirðu svo enn og aftur á skipuninni.
SITT (Sestu)
Hundi sem sest samstundis við kallið SITT, upprétta hönd eða eitt langt flaut í dómaraflautu má forða frá ýmsum vandræðum og slysum, t.d. við umferðargötur sem hann ætlar að æða út á. Þannig má einnig stoppa hann, þegar hann ætlar inn í garð nágrannans ellegar ef hann ætlar á eftir rollum eða fuglum.
Fyrir rjúpnahunda eru skilyrðislaus og ósjálfráð viðbrögð við skipuninni SITT afar mikilvæg. Þjálfun á skipuninni SITT, hefur algeran forgang, enda liggur í þjálfun hennar trygging á allri síðari þjálfun rjúpnahundsins. Þú ræður örugglega ekki við rjúpnahund á veiðislóð ef hann hundsar skipunina SITT. Ef viðbrögð hans eru hinsvegar snögg og ósjálfráð við skipuninni, þá geturðu komið í veg fyrir nær allt klúður í æfingum og á veiðum.
Gjarnan er skipunin SITT sú fyrsta sem æfð er í grunnþjálfuninni, en til að tryggja öryggi hundsins á veiðum er skipunin framlengd síðar yfir í LIGG. Á veiðum er skipunin t.d. notuð þegar rjúpur bresta upp eða hundurinn reisir rjúpu, því þá á hundurinn að setjast eða leggjast, svo eigandinn geti skotið á fljúgandi fuglinn. Ef hundur hleypur á eftir fuglum, þá er hann áður en varir kominn í skotlínu, sem þá ýmist stofnar honum í hættu eða kemur í veg fyrir að eigandinn nái skoti á veiðibráðina. Hundurinn skemmir veiðifæri. Á stundum sitja rjúpur einnig eftir þó aðrar fljúgi upp og því er ófært að hundurinn æði af stað á eftir þeim sem fljúga.
Með þjálfun á skilyrðislausum viðbrögðum við SITT -skipuninni, er reynt að tryggja að þú getir alltaf skotið á fljúgandi fugla, öruggur um að hundurinn hreyfi sig ekki og lendi í skotlínunni. Punkturinn yfir i-ið í þessari skipunum er að rjúpnahundurinn sest samstundis þegar rjúpa flýgur upp, þ.e. að hann skilji virði það sem skipunina SITT. Ef hundurinn leggst flatur þegar fugl flýgur upp, þá er hann öruggari fyrir skotum úr byssu eigandans, en ef hann sest. Rjúpnahundar vilja hinsvegar sjá á eftir rjúpunum, t.d. hvar þær sem skotnar eru detta, sem þeir eiga jú að sækja þær síðar. Við veiðar er það svo alger óhæfa, að vera svo grimmur í skotum, að hundur þurfi að liggja til að vera úr skothættu.
Þjálfun á skipuninni SITT (SESTU)
Þú hefur hundinn í taumi, sem þú heldur í hægri hendi og lætur hundinn ganga þér við vinstri hlið. Síðan segirðu skýrt og ákveðið SITT, en lyftir um taumnum með hægri hendinni þannig að háls og höfuð hundsins lyftast upp. Samtímis, þá ýtir þú ákveði aftarlega á mjaðmagrind hans, þannig að hann sest við hlið þér. Þú lætur hundinn svo sitja þangað til þú leyfir honum að standa upp. Ef hann ætlar að standa upp, segirðu skýrt NEI og ýtir á bakhluta hans um leið og þú segir SITT. Þessa æfingu endurtekur þú dag eftir dag, þangað til óþarft er að ýta á rump hans eða lyfta í hálsólina. Hrósaðu hundinum þegar hann gerir vel, en varastu að láta hrósið trufla hann svo að hann rísi upp eða hreyfi sig úr stað.
Æfingarnar gerið þið þegar þú ferð með hundinn úti í taumi. Fyrir þessa skipun þarftu enga ákveðna æfingartíma, heldur notar samverustundir ykkar markvisst. Ofgerðu ekki æfingunum og vertu glaður og kátur.
Þegar hundurinn sest samstundis við skipunina SITT, bætirðu því við að lyfta hægri hendi beint upp um leið og þú gefur skipunina. Þessari samtvinnun skipunar og handahreyfingar heldurðu áfram þar til það nægir að gera annað hvort.
Næsta skrefið í þjálfuninni er að tryggja að hundurinn sitji tryggilega kyrr, þó þú farir frá honum eða ef eitthvað óvænt gerist í kringum hann. Þá læturðu hann setjast, stígur síðan eitt skref frá honum, en ert þá jafnframt tilbúinn að segja NEI og fylgja því eftir svo að hann færi sig ekki úr stað. Smám saman lengirðu fjarlægðina sem þú ferð frá honum. Haltu vöku þinni og athygli, svo þú getir komið í veg fyrir að hundurinn rísi upp, þ.e. með því að segja NEI áður en hann hreyfir sig. Í grunnþjálfuninni er mjög mikilvægt, að fylgjast svo náið með hegðun hundsins að þú sjáir nánast hvað hann er að hugsa hverju sinni og grípur þá inn í um leið og honum dettur í hug að óhlýðnast. Þú sérð það strax á hundinum þegar þeirri hugsun skítur upp í kollin á honum. Það er kannski í “galdurinn” við hundaþjálfun, að leitast við að sjá fyrir hvað hundurinn mun gera og bregðast við áður en hann framkvæmir. Þú þarft því að einbeita þér við þjálfunina og það ekki síður en hundurinn.
Ef hundurinn stendur upp og hreyfir sig, án þess að þú getir hindrað það verðurðu að leiða hann ákveðið á þann stað sem hann sat á, endurtaka skipunina SITT, ákveðið og krefjandi og láta hann setjast. Eftir að hann er örugglega sestur, þá gengurðu rólega en ákveðið nokkur skref frá honum, en fylgist með og grípur inn í með NEI-skipun áður en hann rís upp að nýju. Ef hann rís alltaf upp þegar þú gengur frá honum, verðurðu að byrja aftur strangar æfingar í að láta hann setjast þér við hlið og tryggja skilyrðislausa hlýðni þar. Fyrst eftir að því er lokið byrjarðu að færa þig frá honum. Á stundum ferðu stutt frá honum, hoppar eða snarsnýst, en hann á samt að sitja óhaggað alveg þangað til þú gefur honum leyfi til að hreyfa sig eða t.d. kallar hann til þín.
Samhliða þjálfun hundsins í að sitja þegar þú ferð frá honum, bætirðu við flautumerkinu um að setjast samhliða skipuninni, þú flautar langt flaut með dómaraflautu. Þá ýmist flautarðu um leið og þú lyftir hægri hendi, ellegar segir SITT og flautar svo. Þú mátt gjarna eyða 1 – 2 mánuðum í að tryggja skilyrðislausa og ósjálfráða hlýðni við SITT skipuninni. Þannig býrðu í haginn fyrir framtíðina og býrð þér til verkfæri til að koma í veg fyrir að aðrir þjálfunarþættir fari úr böndunum.
Lokastigið í þjálfun á skipuninni SITT, er að tryggja að hundurinn bregðist við henni í fjarlægð. Áður en þú reynir slíkt, tryggirðu að hann bregðist alltaf rétt við þegar hann er nærri þér. Til að framfylgja skipuninni SITT í fjarlægð geturðu sett langan taum í hundinn og leitt tauminn í lykkju í kringum staur eða tré, þannig að þú og hundurinn eruð báðir sömu megin við staurinn. Þú leyfir hundinum að leika sér, en þegar taumurinn liggur eins og U um staurinn og hundurinn er nokkra metra staurmegin við þig, þá gefurðu skipuninaSITT. Ef hann ekki sest samstundis, þá kippirðu í tauminn og hann fær rykk á hálsólina frá ósýnilegri hönd sem ýtir kyrfilega við honum og framfylgir þannig skipuninni. Oftast er þó óþarfi að vera með svona æfingar, því kröfuhörð og ákveðin þjálfun á SITT-skipuninni þér við hlið eða svo nærri þér að þú getir fylgt henni eftir, dugar jafnan til að byggja upp hlýðni og rétt viðbrögð. Þú lengir síðan smám saman fjarlægðina sem hundurinn er í þegar þú gefur skipunina, en jafnframt þarftu að vera viðbúinn því að skerpa á hlýðninni með þjálfun þér við hlið.
Farðu á veiðislóð með eldri hundum og æfðu SITT-skipunin Á síðari hluta grunnþjálfunarinnar, er full ástæða er til að fara með hundinn á veiðislóð ásamt reyndum veiðihundum og fá þá að leiða hundinn upp vindinn aftan við hundana þegar þeir taka stand á rjúpu. Þá er tækifærið notað til að kenna hundinum að setjast þegar rjúpa flýgur upp, þ.e. að SITT-skipunin er yfirfærð yfir á það að rjúpa flýgur upp. Þú skalt þó alls ekki freistast til að láta hundinn hlaupa lausan, en notfærðu þér alla standa reyndu hundanna til að þjálfa standinn hjá þínum hundi og að láta hann setjast við uppflug.
Þjálfun á SITT-skipuninni þarftu að viðhalda reglulega, hvort tveggja með hundinn þér við hlið og í mismunandi fjarlægð frá þér. Jákvæð og glaðleg endurtekning, skilar árangri og verður ykkur báðum til ánægju. Jafnframt því sem þú kennir með þessu ákveðna skipun, þá byggirðu upp traust ykkar í milli og kennir almenna hlýðni.
Kom (Komdu)
Þjálfun á innkalli, hefst við þína fyrstu fóðrun hundsins, þ.e. þegar þú kallar hann að matarskálinni. Í fyrstu kallarðu á hann með nafni meðan þú kennir honum nafnið sitt, síðan notarðu jafnframt skipunina KOM og að lokum notarðu merkjaflautuna. Þú notar svo innkallsmerkin á víxl, svo hann hlýði hvort heldur þú flautar, kallar nafnið hans eða skiparKOM. Gjarna slá hundaeigendur sér á læri (tvisvar) við innkall, en það merki sést vel úr fjarlægð og því gott, þar sem hróp, köll og flautukonsertar eru óæskilegir í veiðislóð, því rjúpur heyra vel. Ef þú ætlar að kalla hundinn til þín með að slá þér á lær, byrjarðu það með áberandi handahreyfingum, jafnvel þannig að höndin fari allt að því lárétt út frá öxlinni. Síðan minnkarðu hreyfingarnar og gerir þær nettari.
Þú skammar hund aldrei með nafni, því nafn og innkall eiga að vera ánægjuleg fyrir hundinn.
Til að tryggja öryggi í innkalli þarf að breyta ýmsum ráðum. Hrósaðu hundinum ævinlegar vel þegar hann kemur til þín í innkalli og gleddu hann með bita á stundum þegar hann kemur. Þegar hundurinn fer að leika sér úti í garði, þá opnast honum nýr heimur með margvíslegum spennandi lyktarsterkum hlutum. Því má búast við, að hann þráist á stundum við að gegna kalli. Settu hann þá í langan taum (10-25 m) sem þú lætur hann draga með sér. Áður en þú kallar hann til þín, þá undirbýrðu kallið með því að draga inn slakann á taumnum. Síðan gefurðu KOM skipunina skýrt og ákveðið, en ef hundurinn hlýðir ekki skipuninni, þá kippirðu ákveðið í tauminn og fylgir henni þannig eftir. Þú framfylgir skipun og agar hundinn.
Þegar þú ferð með hundinn út og leyfir honum að hlaupa lausum, þá er viðbúið að gleðin yfir því að hlaupa frjáls leiði hann á villigötur, hann gleymi að fylgjast með þér eða hlýði engu í ærslunum. Þegar þannig stendur á, þá máttu ekki undir neinum kringumstæðum hlaupa á eftir hundinum. Hlauptu í burtu frá honum og vektu athygli hans á því, þá fyrst þegar hann kemur hlaupandi til þín á fullri ferð, þá gefurðu skipunina KOM. Eins og svo oft áður þá gildir hér 95% reglan, þ.e. þegar þú ert viss um að það eru meira en 95% líkur á að hundurinn hlýði skipun þá gefurðu hana, annars ekki.
Ef hundurinn æðir úti buskann, þar sem þið eruð utan þéttbýlis og hann sleppir allri athygli á þér, þá felurðu þig og lætur hann leita þín. Þú gefur þig ekki fram fyrr en hann verður hræddur og sýnir þess ótvíræð merki að hann leitar þín ákaft. Þegar hundurinn hefur svo fundið hvar þú ert og er á harðahlaupum til þín þá kallarðu KOM og byggir þannig samtímis upp skilning á skipuninni. Með endurteknum feluleik tryggirðu að í framtíðinni heldur hundurinn sambandi við þig og hefur auga með þér. Rjúpnahundar eiga hinsvegar að vinna vel útfrá eigandanum og því máttu alls ekki amast við því þó hann fari vel út frá þér, en hann á að halda sambandi við þig.
Fyrir árangursríka samvinnu eiganda og rjúpnahunds á veiðislóð, er lykilatriði að hundurinn haldi vökulu sambandi við eiganda sinn. Rjúpnaveiðin er jú samvinna og hún ber einungis árangur ef báðir vita hvar hinn er við veiðarnar.
Ýmsir hundaeigendur þjálfa hundinn sinn í að útréttar hendur merki KOM. Vissulega getur það verið mjög þarft merki fyrir samvinnu við veiðar, t.d. ef hundurinn er upp í vind frá þér en þá heyrir hann hvorki flaut né kall. Hinsvegar er ekki alltaf gott að baða út öngum þegar maður heldur á haglabyssu. Ef rjúpnahundurinn þinn fylgist vel með þér, þá er þetta vissulega áberandi úr mikilli fjarlægð. Hafðu einnig hugfast, að ef þú snýrð til baka frá fyrri göngustefnu þinni, þá bregst hundurinn jafnan eins við, þ.e. hann skilur að þið séuð að snúa við og hann kemur þá til þín. Þjálfun á þessum viðbrögðum eru eðlilegur hluti af nauðsynlegri fínslípun á samvinnu ykkar á veiðislóð.
Stand (Standa)
Skipunin merkir: Stattu grafkyrr eins og myndastytta. Sumir þjálfa hundinn sinn með skipuninni STAND, sem á stundum getur hjálpað til við að tryggja festu hundsins þegar hann stendur á fugl. Skipunina máttu þó einungis nota þegar þú veist fyrir vissu að hundurinn stendur á rjúpu og hún er svo nærri, að hann á alls ekki að fara nær henni. Ef þú notar skipunina þegar hundurinn er fjarri rjúpu, er hætta á að skipunin rugli hundinn fremur en að hjálpa til við þjálfun hans. Margir nota skipunina því alls ekki, en stöðva hundinn einungis með NEI - skipuninni, þegar hann ætlar of nærri rjúpu. Hundurinn verður sjálfur að fá tækifæri til að læra hve nærri rjúpu hann má fara, án þess að reka hana upp. Því fylgir að sjálfsögðu það, að á meðan hann er ungur og óreyndur á veiðum þá lendir hann í því að fæla upp rjúpur. Þá skiptir sköpum að stöðva hann samstundis og koma algerlega í veg fyrir að hann elti þær. Þú skalt því íhuga það vandlega hvort það er einhver ástæða fyrir þig að þjálfa þessa skipun.
Þjálfunin fer líkt fram og þegar þjálfuð er skipunin SITT. Þegar þú gengur með hundinn í taumi, þá hefurðu hundinn vinstra megin við þig eins og ævinlega. Þú hægir á þér, gefur skipunina STAND og stoppar. Samtímis beygir þú þig niður, rennir vinstri hendinni útfyrir vinstri síðu hundsins og undir kvið hans og kemur þannig í veg fyrir að hann setjist. Þetta æfirðu jafnt og þétt, þar til óþarft er að halda undir kvið hans til að fá hann til að standa kyrr.
Þegar hundurinn stendur kyrr við hlið þér eftir að hafa fengið skipunina, þá byrjarðu varlega að færa þig frá honum, þó þannig að þú getir leiðrétt hann ef hann hreyfir sig úr stað. Þú kallar hundinn alls ekki til þín þegar hann stendur kyrr, en ferð ávalt upp að hægri hlið hans. Ef hann hreyfir sig, þá segirðu NEI, leiðréttir hann og endurtekur um leið skipunina STAND. Þessa æfingu endurtekurðu heima fyrir í ykkar daglegu umgengin. Varastu þó að hundurinn fái leið á þessum æfingum, vertu glaður og jákvæður. Þjálfaðu oft og stutt í senn.
Skipanir og veiðiferlið
Á rjúpnaveiðum er það rjúpnahundurinn sem leitar og finnur rjúpur. Þegar hann finnur lykt af rjúpum, þá leitar hann upp í vindinn í átt til þeirra og þrengir smám saman leitarsvæðið þar til hann er svo stutt frá þeim að hann getur staðsett þær nákvæmlega á lyktinni. Þar stöðvar hann og stendur sem klettur og bendir nefinu beint á rjúpurnar. Þú ferð þá upp að hægri hlið hans til að veiða. Þú rekur sjálfur upp rjúpurnar úr fyrstu hundrað stöndunum og lætur hundinn jafnframt setjast þegar þær fljúga. Þegar hundurinn hefur sest við uppflug rjúpna úr um hundrað stöndunum og hann sest samstundis og tryggilega við það, þá ferðu að kenna honum að reisa rjúpurnar fyrir skot, með því að hlaupa með honum í átt að þeim. Þegar rjúpurnar fljúga, þá læturðu hundinn samstundis setjast og þú fylgir því eftir með SITT-skipuninni, en síðan mundarðu byssu (startbyssu eða haglabyssu) til að skjóta á fljúgandi rjúpurnar.
Hversvegna verða rjúpnahundar að hlýða ; SITT og NEI ósjálfrátt?
Lok veiðiferlisins fela í sér að þú ferð upp að hægri hlið hans í standi og þegar rjúpurnar fljúga, þá sest (SITT) hundurinn samstundis, svo þú hafir svigrúm til að skjóta án þess að hann sé í hættu. Ef hundurinn stendur á fugli, en ætlar síðan að fara of nærri að þínu mati, þá segirðu NEI (og síðan STAND). Þannig tryggirðu að hann standi kyrr sem klettur. Ef hann ætlar að rjúka á eftir rjúpum sem bresta upp, þá skiparðu NEI og síðan SITT, svo þú fáir svigrúm til að skjóta án þess að hann hlaupi inn í skotlínu. Þegar rjúpa fellur og hann ætlar að rjúka í hana, skiparðu NEI og síðan SITT og hann stöðvar þá samstundis og sest. Til að tryggja enn frekar að hundurinn skilji að hann á ekki að fara á eftir fugli, þá lætur þú unghund sitja kyrran og sækir fallna bráð sjálfur. Ekki er ástæða til að láta unghund sækja nýfallna bráð, það einungis eykur hættu á að hann rjúki í að sækja bráð við skothvell (skotsæknir) eða þegar bráð fellur (fallsæknir). Þá fyrst, þegar rjúpnahundurinn er eins og klettur tryggur í veiði, á standi og við skot, hugleiðirðu að láta hann sækja fyrir þig fellda bráð.
Hefur hundurinn veiðiáhuga?
Þegar þú ert búinn að tryggja öruggt innkall og ósjálfráð viðbrögð við skipuninni SITT, skaltu prófa viðbrögð hans við “gervi” rjúpu.
Festu saman tvo rjúpnavængi svo þeir fái á sig fuglsmynd. Festu “fuglinn” á sterkan girnistaum (2 - 3 m) í endanum á mjóu priki eða veiðistöng (ca 2 m). Farðu með hundinn út í garð og leyfðu honum að leika sér þar lausum. Láttu “fuglinn” fljúga yfir hundinum og vektu þannig áhuga hans, en láttu fuglinn svo lenda framan við hundinn í nokkurra metra fjarlægð. Hundurinn hleypur þá væntanlega ákafur að “fuglinum”, sem þú lætur fljúga upp og skipar um leið SITT og fylgir skipuninni eftir. Á þennan hátt kennirðu hundinum að tengja saman skipunina um að setjast (SITT) og uppflug fugla. Hundinum lærist fljótlega að hann nær “fuglinum” aldrei og hann á alls ekki að gera það, því þú hrósar honum þegar hann sest við uppflug „fuglsins“. Þegar hann fer að læðast í áttina að fuglinum og hægir á sér við undirbúning á standi, þá stöðvar þú hann (með NEI eða þú gefur t.d. STANDskipunina) svo hann standi sem klettur og beina nefinu að “fuglinum”. Þetta æfirðu með óreglulegu millibili og lýkur standinum með því að láta “fuglinn” bresta upp og hundinn setjast (SITT).
Nef rjúpnahundsins skiptir öllu máli fyrir veiðigetuna
Lyktnæmi rjúpnahunds er sá eiginleiki sem mestu skiptir hann við að finna rjúpur. Markmið veiðiþjálfunarinnar er að tryggja að hundurinn leiti hratt og nákvæmlega sem stærst veiðisvæði. Hann lyktar í sífellt í yfirferð sinni um veiðislóðina og metur hvort og hvar rjúpur halda sig. Því næmara sem lyktarskyn hans er því betur á hann með að finna lykt af rjúpum á stóru svæði upp í vindinn frá hlaupaferli sínu. Þegar hann svo finnur rjúpur, á hann að nota lyktnæmnina til að staðsetja þær og meta fjarlægð í þær.
Gott lyktarskyn rjúpnahunds, eitt útaf fyrir sig er þó alls ekki nóg. Veiðiþjálfun miðar að því að móta yfirferð hans og leitarmunstur, þannig að það hann fari hratt um veiðilendur, markvisst og skipulega. Þjálfunin má þó alls ekki vera svo kröfuhörð og þrúgandi að hann glati eigin frumkvæði við að lesa landið og meta hvar líkur eru á rjúpum og hvar ekki. Rjúpnahundar verða nefnilega mjög snarlega miklum mun færari en við í að meta hvar rjúpna er von og hvernig er best að finna þær miðað við verður og landslag.
Rjúpnahundar eru greindir og skynsamir
Þjálfunin má hvorki undiroka veiðieðli hans, né skynsemi hans og reynslu. Góður rjúpnahundur er greindur og veiðieðlið segir honum hvernig hann á að veiða með þér sem flestar rjúpur. Þú verður því að meta það réttlátlega þegar rjúpnahundurinn þinn, snýr ekki samstundis við er þú kallar á hann, heldur kannar skynsamlega ákveðið svæði sem hann stefndi á, þ.e. svæði sem eðli hans og reynsla segja að líklegt sé að finna rjúpur á. Einnig getur verið að hann finni örlítinn og óljósan vott af rjúpnalykt í loftinu þegar þú kallar. Hann veit þá að hann færir þér kannski veiði ef hann heldur örlítið áfram og gengur úr skugga um hvort hugboðið var rétt. Mettu sjálfstæði hans og veiðiáhuga að verðleikum, því að þegar þú hefur þjálfað hundinn þá veit hann hvernig þið veiðið saman. Ef þú hefur unnið þitt verk vel við grunnþjálfun, þá máttu vera viss um að á veiðum veit rjúpnahundurinn betur en þú hvar rjúpu er að finna og hvar ekki. Treystu alltaf rjúpnahundinum þínum, því veiði ykkar saman byggir á gagnkvæmu trausti.
Rjúpnahundarnir, setar og bendar, eru greindir og margir hverjir mjög næmir veiðihundar. Bestu rjúpnahundar beita einungis að hluta þjálfaðri yfirferð og leitarmunstri, þeir vinna af meðfæddum eiginleikanum, vega og meta aðstæður og byggja á reynslu af því hvar rjúpur er helst að finna. Þeir láta veiðieðlið ráð og skapa ykkur þannig mörg færi á veiðibráð.
Girðingar og hlið
Mikilvægt er að kenna hundum að virða girðingar. Þeir eiga hvorki að fara yfir þær, undir eða í gengum. Hundar sem venjast á að stökkva yfir girðingar rífi sig flestir, fyrr eða síðar, illa á kviðnum. Hitt er þó mikilvægara, að girðing merkir oftast mörk landareigna og í vaxandi mæli verðum við að fá leyfi til veiða á ákveðnu landi eða halda okkur þá innan eða utan tiltekinna girðinga. Búfénaður er einnig jafnan girtur af og ekki viljum við að bóndinn sem við fengum veiðileyfi hjá, fyrtist við það að hundurinn okkar æði um og “æri” búfénaðinn. Við viðrum því girðingar og leyfum hundinum aldrei að fara sjálfum yfir þær.
Veiðiþjálfun standandi rjúpnahunda
Ef vel er að verki staðið við grunnþjálfunina og hundurinn er harður af sér og sjálfsöruggur, má hefja veiðiþjálfunina við eins árs aldurinn. Oft er þó ekki ástæða til veiðiþjálfunar fyrr en hundur er vel á öðru ári. Misheppnuð veiðiþjálfun á rjúpu, með óagaðan hund, leiðir jafnan til þess að hann eltir alla fugla út og suður, hlýðir engu og hverfur yfir holt og hæðir á eftir fuglum. Þegar svo er komið, er einungis eitt ráð til, þ.e. að hefja agaða og krefjandi grunnþjálfun að nýju.
Veiðiþjálfun hefst gjarna á slóðum þar sem lítið er af rjúpu og hrossagauk. Þar er leitarmunstur hundsins mótað og skerpt er á fjarlægðarstjórnuninni. Þá er og tryggt að hundurinn setjist hvar sem er við skipun og að hann komi alltaf við innkall. Skerpt er á því að hann fylgist með eiganda sínum og veiða með honum. Einnig er hann vaninn við skothvelli og byssumeðferð.
Á þessum tíma er ástæða er til að fara með hundinn á veiðislóð með reyndum veiðihundum svo oft sem kostur er. Þar fær hans þó eingöngu að fara upp í vindinn aftan við eldri hundana þegar þeir taka stand á rjúpu. Þá er notarðu tækifærið til þess að kenna hundinum að þekkja rjúpnalykt, taka stand og heiðra stand makkers síns. Síðast en ekki síst er hundinum kennt að setjast þegar rjúpa flýgur upp. Mikilvægast þátturinn í veiðiþjálfuninni er að yfirfærir SITT-skipunina á það að rjúpa flýgur upp. Smám saman er hundurinn látinn reyna sig á veiðislóð. Hann fær tækifæri til að taka sjálfur stand á rjúpur, í fyrstu jafnvel í löngum taumi.
Sækiþjálfun rjúpnahunda má gjarna vera hluti af lokaþætti grunnþjálfunar, auk þess sem hundurinn er þá einnig vaninn við skot.
Áður en farið verður í grunnþætti veiðiþjálfunarinnar, er nauðsynlegt að fara enn og aftur yfir veiðitækni rjúpnahunda.
Veiðitækni rjúpnahunda
Við veiðar er árangursríkast fyrir rjúpnahunda að hlaupa um veiðispilduna með nokkuð reglulegum leitarslögum, þvert á vind. Hundurinn verður þó að taka mið af landslagi og gróðurfari í yfirferðinni. Hundurinn á að leita veiðispilduna á hraðri ferð, stökki eða brokki. Hann á að bera nefið hátt yfir jörðu svo hann finni lykt af rjúpum sem lengst að. Hundur sem heldur nefinu niðri við jörðu, finnur einungis lykt af sporum og öðrum ummerkjum mjög nærri slóð sinni.
Þegar fuglahundur finnur veika lykt af rjúpu, þá hleypur hann gjarna örlítið áfram þar til lyktin sem berst með vindinum minnkar, en snýr þá til baka skáhalt upp í vindinn í þá átt sem lyktin er sterkust. Þannig leitar hann þvert á vind, en fikrar sig jafnfram í sífellu upp í vindinn. Hann minnkar smám saman breidd leitarsvæðisins, uns hann tekur ákveðna stefnu með nefið beint upp í vindinn þangað sem sterkust lykt berst. Hann nálgast rjúpurnar varlega uns hann stendur eins og klettur og bendir nefinu í átt að þeim. Áður en hann stöðvast í standi, þá fer hann eins nærri rjúpunni og reynslan hefur kennt honum að sé óhætt, án þess að fæla rjúpurnar upp. Grafkyrr, oft með krepptan framfót, stendur hann og bendir á rjúpuna hvort heldur hann sér hana eður ei.
Ef rjúpnahundurinn lendir í mjög sterkri rjúpnalykt á yfirferð sinni, þá veit hann af fyrri reynslu að rjúpan gæti fælst upp ef hann hreyfir sig. Hann snarstoppar því, með nefið beint upp í vindinn þaðan sem lyktin berst. Hann haggast ekki, heldur bíður með hverja taug spennta, uns þú kemur og tekur þátt í veiðunum með honum.
Góðir rjúpnahundar leita veiðilendur í reglulegum leitarslögum þvert á vindinn og þeir halda bili milli slaganna þannig að þeir fá lykt af öllu svæðinu þar á milli. Með veiðiþjálfun og af reynslu læra þeir að haga leitarmunstrinu eftir vindstyrk og skipulagi á yfirferð eftir mismunandi landslagi og gróðurfari. Nokkuð regluleg yfirferð, sem tekur tillit til landslags og gróðurfars, skilar oftast mestum árangri við veiðarnar. Regluleg leit tryggir að ekkert svæði verður óleitað og vegalengdin sem hundurinn hleypur verður styst. Leitarbreidd á veiðispildu, ræðst af landi og gróðurfari, sem og leitarmunstrið. Sjaldan er leitarsvæðið þó meira en nokkur hundruð metrar á hvorn væng.
Mörgum rjúpnahundunum það eðlislægt hvernig á að leita rjúpna og iðulega eru þeir snöggir að læra betur en við veiðimennirnir hvernig árangurríkast er að veiða rjúpur.
Þjálfun leitarmunsturs og fjarlægðarstýring
Flestum rjúpnahundum er það eðlislægt að leita bráðar. Til þess að fá sem besta yfirferð við veiðarnar er á stundum nauðsynlegt að móta leitarmunstrið og kenna þeim að taka leiðbeiningum úr fjarlægð.
Við upphaf mótunar á leitarmunstrinu, þá vinnið þið félagarnir eingöngu upp í vindinn. Þú ferð ætíð með rjúpnahundinn í taumi í nokkra tugi eða hundruð metra frá bíl út á veiðilenduna. Þú athugar vindáttinni, t.d. með því að rífa upp gras eða laufblað og henda upp í loft. Til þjálfunar velur þú þér “veiði”spildu með fáum veiðifuglum á (rjúpum og hrossagaukum). Í fyrstu getur jafnvel verið ástæða til að fara yfir “veiði”spilduna áður en þú byrjar þjálfunina og fæla þaðan alla veiðibráð.
Þú leggur niður fyrir þér hvernig skynsamlegast er að leita veiðispilduna og ferð svo á upphafsstað með hundinn í taumi. Þar snýrðu upp í vindinn og sendir hundinn af stað út frá þér þvert á vind. Þú gengur rólega lítillega á ská upp í vindinn og leyfir hundinum að geysast áfram. Þegar hann er kominn svo langt út frá þér á veiðislóðinni að þér finnst ástæða til að hann snúi við vekurðu athygli hans á því (eitt stutt flaut) og snýrð síðan til baka aðeins skáhallt uppi vindinn. Þegar þú snýrð, þá sveiflarðu hendinni greinilega og bendir í nýju göngustefnuna. Hundurinn snýr þá væntanlega við og hleypur til baka. Ekki hvetja hann eða trufla með hrópum, hann þarf að læra sjálfstæði við rjúpnaleit. Ef hann kemur ekki á eftir þér haltu göngunni áfram, en rólega þó. Gefðu honum tíma til að skilja hvert þú ert að fara og hvernig hann á að haga sér.
Þegar hundurinn kemur svo hlaupandi á eftir þér þvert á vindinn, skaltu leyfa honum ótrufluðum að hlaupa framúr þér. Ef hann stöðvast hjá þér hveturðu hann af stað, eftir að hann hefur fengið nokkurn tíma til að átta sig.
Með þessum hætti stýrir þú leitarslögum hundsins, þvert á vind. Þú lætur hann vinna sem mest sjálfstætt, en hvetur hann einungis af stað út frá þér. Með bendingum gefurðu stefnuna til kynna, en gerðu ekki mikið af því, svo hann verði ekki of háður þér í leit sinni.
Við þjálfun í leitarmunstri unghunda og hunda, er rétt að láta þá einungis leita upp í vindinn. Eftir því sem hann eykur fjarlægðina sem hann fer út frá þér til beggja handa þvert á vind, því minna gengur þú sjálfur þvers og kruss. Markmiðið er að hann einn leiti veiðislóðina, fari vel útfrá þér (200 - 500 m), allt eftir landslagi og gróðurfari, en þú heldur svo fastri göngustefnu. Þú gengur rólega upp í vindinn svo hundurinn hafi tíma til að fara vítt um.
Þú kennir hundinum hægt og bítandi hvað bendingarnar merkja, þegar þú breytir göngustefnu. Með reynslunni byggir hann upp sjálfstætt leitarmunstur, en hann fylgist með þér og hagar leitinni eftir göngu þinni, landslagi og gróðurfari. Á snjóbreiðum leitar fuglahundurr vel í kjarri og lyngbrúskum, í fjalllendi leitar hann gil, skorninga og gróðurtorfur, en fer gjarna hratt yfir berangur, mela og sanda.
Þjálfun í leitarmunstri er langtíma verkefni og jafnvel fullþjálfaðir hundar þurfa leiðbeiningar við, til að bæta og auka yfirferðina. Algengustu mistökin eru, að hundum sé stjórnað of mikið með handapati, flautumerkjum og hrópum. Slíkt er mjög bagalegt fyrir hunda, sem þá verða óöruggir og hikandi í leit. Þeir stoppa oft, líta upp og bíða eftir skipunum.
Fuglahundur úr góðri ræktun, hefur það í sér hvernig á að leita rjúpna, en okkar er þá fyrst og fremst að móta leitarmunstrið og hvetja þá til dáða. Hundarnir eru jafnan miklum mun hæfari til að leita rjúpna en við. Þeir þurfa því að byggja upp sjálfstæði og sjálfsöryggi, en verða að fá leiðbeiningu og ögun svo þeir veiði með okkur en ekki fyrir sig. Hróp, köll og flautukonsertar trufla hundana jafnan mikið og gera þá óörugga og vansæla.
Í rjúpnalöndum hérlendis, þurfa rjúpnahundarnir að læra af reynslunni hvernig haga beri leitarmunstri. Þær læra smám saman hvar rjúpna er von og hvar síður. Mótun leitarmunstursins tekur því oft, tvo til þrjú ár og ræðst mest af hve mikinn tíma hundurinn fær í leit á rjúpnaslóð. Á ökrum nágrannalanda okkar, eru setar og bendar mikið notaðir til veiða á hænsnfuglum, s.s. fasönum, akurhænum og kornhænum. Þessir fuglar lifa sumir hverjir úti á ökrunum innan um sykurrófur og korn. Fasanar hinsvegar, eru mikið við skurðbakka og skjólbelti, en við þær aðstæður er lykilatriði fyrir árangur í veiðum að hundarnir fari alveg út á skurðbarma og að skjólbeltum. Þar þarf þjálfun í leitarmunstri því að vera miklum mun agaðri en í rjúpnalendum í lággróðri, melum og fjalllendi. Vegna aðstæðna við veiðar á ökrum í grannlöndum okkar, þá hefst þjálfun á leitarmunstri seta og benda oft með algerri stýringu á yfirferð þeirra og þeir þá í fyrstu hafðir í löngum taumi. Hér á eftir fylgir stutt skýring á þeirri þjálfunaraðferð, sem hollt er að hafa í huga við þjálfun hunda, ef engu tauti verður við þá komið í leitarvinnunni.
Þjálfun leitarmunsturs rjúpnahunds í löngum taumi (Einungis fyrir hunda sem lítt eða ekki leita skipulega sjálfir)
Þú hefur hundinn í löngum taum (10 - 25 m) við þjálfunina, en hnýtir stóran hnút á enda taumsins svo hann renni þér síður úr greipum. Vertu með hanska, því ella færðu slæm nuddsár, ef taumurinn dregst hratt út úr lófann þér.
Á upphafsstað á veiðislóð, þá gefurðu hundinum nokkuð lausan tauminn og skokkar síðan rólega út til hægri rétt framan við, þvert á vindstefnuna. Þú hvetur hundinn um leið til þess að hlaupa fram úr þér. Á skokkinu heldurðu í tauminn en slakar honum út eftir því sem hundurinn fer framúr þér. Þegar þið hafið farið 25 - 50 m vekurðu athygli hundsins og gefurðu honum bendingu í þá átt sem þú ætlar að snúa í, þ.e. þú sveiflar vinstri hendi upp og út um leið og þú breytir stefnunni til vinstri. Nýja stefnan er þá aðeins upp í vindinn framan við þvert á vindstefnuna. Þegar þið hafið farið svona í 50 - 100 m, þá gefurðu merki með hægri hendi um að þið ætlið að snúa og stefna til hægri. Svona farið þið yfir veiðislóðina í leitarslögum þvert á vindinn og fikrið ykkur smám saman fram á við, upp í vind. Þú æfir merkjagjöf og fjarlægðarstjórnun með hundinn í taumnum, þannig að þú getir fylgt eftir stefnubreytingum. Á skokkinu heldurðu höndina gjarna framréttri til að gefa skýrt til kynna stefnuna sem þú vilt að hundurinn fari í. Merkjagjöfina meturðu og vegur, því það er áreynsla að halda hendinni framréttri á skokkinu. Fljótlega gefurðu því stefnumerkið einungis endrum og sinnum, en þó alltaf ef kemur hik á hundinn og hann virðist í vafa um hvert hann á að halda. Smám saman verðurðu svo að minnka handarmerkin, en gefa einungis tilkynna stefnubreytingarnar. Þú byggir smám saman upp sjálftraust hundsins þannig að hann geti leita veiðislóð einn og óstuddur.
Fundinn fugl
Við æfingarnar verðurðu að vera vel vakandi og fylgjast vel með því ef hundurinn finnur lykt sem hann vill skoða. Það má hann gjarna gera og þú lætur hann þá ráða ferðinni, en ert tilbúinn til að grípa inn í. Ef þú sérð rjúpu eða veist af henni skaltu hiklaust notfæra þér það við þjálfunina. Þú skalt stöðva hundinn í tíma og setja í langan taum ef hann sýnir merki um að bráð sé í nánd. Þú veist, að þegar hann finnur lykt af veiðibráð styttir hann leitarslögin og hægir á sér. Þegar hann hefur svo staðsett fuglinn tekur beina stefnu upp í vindinn með framrétt trýni, en sígur í herðunum og fer að læðast eins og köttur. Ef þú hefur ekki stjórn á hundinum í fuglavinnu geturðu stöðvað hann og sett á hann langan taum, þegar hann sýnir merki um að rjúpa sé í nánd. Þú leyfir honum að halda upp í vindinn og taka þar stand á veiðibráðina. Hafðu gát á hundinum og nálgastu langa tauminn, en vertu tilbúinn á grípa inn í, með hrópum og flautumerkjum. Því þú leggur nú allt kapp á að koma alfarið í veg fyrir að hundurinn elti rjúpuna, þegar hún flýgur upp. Þegar rjúpan fer að reigja sig og hleypur upp á næstu þúfu, er vísast að hundurinn megi ekki fara nær án þess að fæla hana upp. Reyndu þá að stöðva hundinn, með skipun. NEI - skipunin, sem þá merkir: hættu strax því sem þú ert að gera, þ.e. læðast í átt að fuglinum. Þú getur líka notað skipunina kyrr, ellegar standa ef þú hefur æft hana. Láttu hundinn halda standi á veiðibráðina (rjúpu eða hrossagauk) í 2 - 3 mínútur, á meðan þú talar rólega við hann. Þú mátt gjarna standa við hlið hans og strjúka hann fram eftir hryggnum því það virkar róandi á hann. Þú kastar síðan steinvölu í átt að fuglinum til að fæla hann upp, en lætur hundinn setjast (SITT-skipanir) umsvifalaust þegar fuglinn brestur upp. Hundurinn á svo að sitja kyrr í nokkrar mínútur, meðan þú hrósar honum varlega og lætur í ljós gleði þína yfir getu hans.
Þegar hundurinn hefur setið kyrr eftir að rjúpan flaug, þá ferðu með hann í taumi í nokkra tugi metra í þveröfuga átt við flugstefnu fuglsins. Þar leyfir hundinum að byrja veiðivinnuna að nýju. Ef þú ferð með hundinn þangað sem fuglinn sat, þá ertu ómeðvitað að ýta undir þá brennandi löngun hans til að rjúka á eftir fuglinum eða í bæli hans. Þannig ýtirðu undir að hann verður óstöðugur í standi eða rýkur á eftir fuglum sem þú skýtur. Ef hundurinn ætlar í þá átt sem fuglinn flaug þá kallarðu hann inn, lestu yfir honum og setur hann svo óhikað út að nýju.
Ef hundurinn finnur smáfugl, þá leyfirðu honum að ganga úr skugga um það, en segir honum síðan að þið hafið engan áhug á smáfuglum. Þú verður þó að vera alveg viss um að hundurinn sé að fara í smáfugl, en ekki rjúpu eða hrossagauk. Þess vegna er skynsamlegt að láta hundinn fæla smáfuglana upp, en gefa þá fyrst til kynna vanþóknun á smáfuglaveiðum.
Þjálfun á leitarmunstri er langtímaverkefni
Við þjálfun á leitarmunstrinu þá hvetur þú hundinn til að fara vel út frá þér. Það gerirðu ef þörf er á með glaðværri hvatningu, t.d. skipuninni ÁFRAM. Láttu hann ráða nokkuð ferðinni og mótaðu hana með gönguferli þínum. Smám saman mótarðu leitarvinnuna, lætur hundinn fara sífellt lengra út frá þér og stækkar þannig leitarsvæðið.
Hundurinn lærir mjög fljótt stefnumerki frá þér, ef þau eru nógu skýr. Það er mikill kostur að geta leiðbeint hundinum úr fjarlægð, við veiðar. Ef þig grunar t.d. að fugl sé á ákveðnu svæði þarftu að geta sent hundinn þangað. Fjarlægðarstýringin er reyndar mikilvægust þegar hann á að finna bráð sem þú hefur skotið, þá þarftu að geta sent hundinn til leitar á svæði sem þú sást fuglinn detta á. Samtímis því sem þú æfir leitarmunstur, kennir þú hundinum merkjagjöfina sem þú notar við fjarlægðarstjórnun.
Eftir tveggja til þriggja vikna daglega þjálfun í leitarmunstri ætti hundurinn að skilja merkjagjafir við fjarlægðarstjórnun og þá skaltu gjarna bæta við flautumerki um að hann eigi að breyta stefnu (langt flaut) eða líta til þín eftir leiðbeiningu.
Þú heldur áfram þjálfun á leitarmunstri þar til hundurinn skilur merkjagjöfina og bregst rétt við þegar þú gefur bendingu. Þú leggur áherslu á leiða hann um alla veiðislóðina, sem þú hefur ákveðið að “veiða”, þannig að hann skilji ekki eftir óleitaða hluta af slóðinni.
Rjúpnalykt er mismunandi greinileg
Rannsóknir á rjúpnahundum og hegðun þeirra í veiðilendum sýna, að vindstyrkur, loftraki og raki gróðursins, ráða hve lykt af rjúpum berst um langan veg. Þá virðist einnig vera sem rjúpur finnist “best” snemma að morgni og síðla dags, en þær virðast gjarna “hverfa” um miðjan daginn. Á stundum hefur það verið skýrt með því, að eftir nætursvefn byrji rjúpurnar að éta af miklum móð strax fyrir birtingu. Þær hreyfi sig þá og mikil lykt berst frá þeim út um fjaðurdragtina. Eftir að þær hafa étið sig saddar, þá haldi þær oft kyrru fyrir um stund. Þá kúra þær sig og loka fjaðrahamnum með þekjufjöðrunum, svo að þær haldi vel á sér hita, en um leið berst lítil lykt frá þeim og hundarnir eiga þá erfitt með að finna þær. Rjúpurnar byrji svo gjarna að éta að nýju síðla dags, þ.e. fyrir næturhvíldina og þá berist gjarna mikil lykt frá þeim á ný við hreyfinguna. Vissulega er þetta ekki einhlítt og þegar dagur er stuttur eyða rjúpurnar nánast öllum birtutímanum í fæðuöflun og eru þá á stöðugri hreyfingu milli gróðurbrúska.
Treystu hundinum og lestu úr hegðun hans
Þú verður alfarið að treysta hundinum þínum og lesa hegðun hans til að ná árangri við þjálfun og veiðar. Einbeittu þér að því skilja hvað hann er að gera. Með þjálfun hundsins ertu að þjálfa þig í að skilja hann og viðbrögð hans úti í náttúrunni. Þegar líða fer á þessa þjálfunartörn ykkar við mótun leitarmunsturs og vinnu með veiðibráð, þá átt þú nánast alltaf að geta séð fyrir hvað hundurinn mun gera næst. Þú átt að vera einu til tveimur skrefum á undan honum í huganum svo þú getir gripið inni áður en hann gerir mistök. Þannig leiðbeinir þú honum best og þið náið árangri.
Vertu ávallt viðbúinn því að stöðva hundinn með SITT-skipun
Vertu viðbúinn því að hundurinn mun fæla upp fugla, hrossagauk og rjúpur. Þá þarft þú samstundis að gefa skipunina SITT. Ef þú ert að hugsa um vinnuna eða síðasta partý, þá missirðu hundinn á eftir fuglinum og þú þarft þá að stöðva eltingaleik, þegar þú ættir að vera að þjálfa hundinn í að setjast þegar fugl flýgur upp. Einbeittu þér, þjálfaðu markvisst og meðvitað. Þegar þú ert óupplagður eða annars hugar þá skalt hætta veiðiþjálfun og fara í göngutúr með hundinn í taumi. Árangur í veiðiþjálfun, næst einungis þegar þú og hundurinn einbeitið ykkur.
Reynslulitlir rjúpnahundar standa oft og benda á mófugla, s.s. lóur og spóa. Slíka standa verður þú að afgreiða í samræmi við fánýti þeirra sem veiðibráðar, þ.e. með dæsi og armæðutali við hundinn. Þú leiðir hann svo af stað í nýja leit, en þú mátt alls ekki skamma hundinn fyrir að taka standa því þá verður hann óöruggur með sig.
Þegar hundurinn stendur á smáfugla, fælir þá upp og eltast við þá, skaltu stoppa slíkt ákveðið, en þó án láta. Örvaðu hundinn til að halda vel áfram við leit og veiðar. Þegar hann kynnist raunverulegri veiðibráð, rjúpu og hrossagauk, þá verða smáfuglar hjóm eitt í huga hans.
Rjúpnahunda þarf að þjálfa og þeir verða að finna bráð
Það er vel þekkt, að reyndir veiðihundar sem margsinnis í röð eru látnir leita veiðispildur án þess að finna þar bráð, byrja á stundum á því að standa á smáfugla s.s. þúfutittlinga. Slíkt gera þeir sennilega vegna óöryggis sem byggist upp við árangurslausa leit að veiðibráð.
Allir rjúpnahundar, bæði þaulreyndir veiðihundar og unghundar, verða að því fá tækifæri til að veiða þar sem er bráð er að finna. Yfir varp- og ungatíma (20. maí - 20. ágúst) er slíkt þó ekki hægt, en á öðrum tímum verðurðu að fara af og til á veiðar. Ef veiðihundarnir eru langtímum saman æfðir í veiðilausum lendum, má búast við að þeir auki smám saman leitarbreidd sína án þess að þeim sé ætlað slíkt. Þeir hætta svo að hlýða bendingum og hverfa að lokum á braut og reyna fyrir sér sjálfir, fjarri eigandanum. Þú verður því ávalt að viðhalda þjálfun hundsins, svipað og þú verður að viðhalda skotfimi þinni og gönguþjálfun.
Ef hundurinn þinn hættir að gegna í fjarlægð, þá byrjar þú á grunninum að nýju. Þú ferð hratt og markvisst yfir þjálfunina og tryggir að hundurinn viti alltaf til hvers er ætlast af honum. Varastu þó að rugla saman tregðu við skipunum og því að hundurinn sýni frumkvæði og haldi áfram að leita þar sem bráðar er von, áður en hann bregst við skipunum þínum. Slíkt verður þú að meta að verðleikum því sjálfstæði og veiðieðli hundsins verða að fá að blómstra. Leggðu þig fram, einbeittu þér og leitastu við skilja hegðun hundsins, því þannig náið þið árangri saman.
Dúfur og þjálfun veiðihunda Erlendis eru dúfur mikið notaðar við þjálfun rjúpnahunda, m.a. þegar hundurinn er kennt að setjast þegar veiðibráð brestu upp. Hver veit nema hratt vaxandi áhugi og alvara í veiðum með hundum, verði til þess að dúfnaræktun til þjálfunar veiðihunda verði sjálfsögð. Æfingin með “gervifugl” í línu á veiðistöng gegnir að hluta saman hlutverki og dúfur þegar rjúpnahundum er kennt að setjast þegar við uppflug fugla.
Þjálfun með dúfum fer t.d. fram á eftirfarandi hátt. Þú setur nokkrar (3 - 5) dúfur í hliðartösku á hægri öxl þinni, en hefur hundinn í taumi í þeirri vinstri. Þú gengur með hundinn við hæl og þegar hann er með hugann við eitthvað annað en þig og töskuna, þá tekurðu dúfu upp og hendir nokkurra metra fram fyrir hundinn. þegar dúfan tekur til vængjanna skiparðu SITT. Hundurinn verður væntanlega mjög undrandi og jafnvel hálf-hvekktur, sem eykur þá líkurnar á að hann hlýði SITT-skipuninni, sem þú ella fylgir strax eftir. Þetta endurtekur þú með óreglulegu millibili á gönguferð ykkar. Farðu varlega og varastu að hræða hundinn þegar þú hendir út dúfunum. Eftir að hafa æft hann svona í nokkur skipti, er nánast gulltryggt að hann verði sem klettur öruggur með að setjast þegar fugl brestur upp nálægt honum.
Þjálfun á viðbrögðum við skothvelli
Til að venja hundinn við skothvelli þarftu ódýra knallettubyssu eða startbyssu. Þegar hundurinn eða hálfstálpaður hundurinn er upptekinn í leik, þá læturðu félaga þinn hleypa af startskotum í góðri (50 m) fjarlægð. Þú heldur þig með hundinum, leikur jafnvel við hann og fylgist náið með viðbrögðum hans. Ef hann veitir skotinu enga athygli, bendirðu félaga þínum að nálgast. Hann færi sig þá 20 m í átt til ykkar, þar sem hann síðan hleypir af skotum. Síðan kemur hann enn nær (20 m) og endurtekur skotin. Næst þegar þið æfið þetta byrjar félagi þinn með startbyssuskotin í 30 m fjarlægð og færir sig svo varlega í átt til ykkar. Þannig tryggirðu smám saman að hundurinn lætur sig skothvelli engu varða. Gerðu ráð fyrir að það taki þig nokkra daga að ná lokamarkinu, sem er að hleypa af byssunni alveg við hlið hundsins.
Þegar þú hefur tryggt að hundurinn hræðist ekki skothvelli, ferðu að tengja saman skothvelli og skipunina SITT. Þú skaltu einnig fá félaga þinn til að skjótta fyrstu haglaskotunum fyrir hundinn. Þá verðurðu að láta skjóta fyrstu skotunum í góðri fjarlægð frá ykkur og halda athygli hundsins við skemmtilegheit. Síðan fikrar skyttan sig rólega í átt til ykkar, svipað og þegar byrjað var með startbyssuna.
Mikill veiðiáhugi er lykilatriði og hann þarf að örva
Þegar hundurinn er farinn að veiða vel fjarri þér, þ.e. hann fer markvisst og reglubundið yfir alla veiðislóðina, þá þarftu að hvetja hann ákaft þegar hann leggur af stað í veiðarnar. Á veiðihundaprófum leita rjúpnahundar oftast 10 - 15 mínútur í senn og þeir verða því að leita af fullum krafti frá fyrstu mínútu. Það hefur mikil áhrif á dómara og áhorfendur ef hundur æðir af stað frá þér þegar hann fær að reyna sig á móti öðrum hundum í veiðiprófi og sýnir þannig mikinn veiðiáhuga. Æfðu því hundinn í að byrja veiðar af krafti.
Farðu alltaf með hundinn í taumi út á veiðisvæðið, en láttu hann ekki skondra og skrattast í kringum þig á leið þangað. Við upphaf veiða skaltu halda hundinum við hlið þér, þar sem þú talar spenntur til hans. Þegar þú sleppir honum, þá gefurðu honum til kynna hvað hann á að gera með t.d. að segja LEITA eða HVAR ER RJÚPA ? Þannig tengir hann leitarferlið og veiðarnar, við ákafa þinn og hvatningu þegar honum er sleppt. Markmiðið er að byggja og auka áhuga hans fyrir veiðunum, þannig að hann sýni hann greinilega.
Æfðu vel fjarlægðastjórnun
Þegar þú sleppir hundinum til leitar hveturðu hann af stað. Þú leyfir honum að leita um stund og stjórnar leitinni með göngustefnu þinni eða bendingum, en tryggir að hann leiti alla veiðispilduna.
Þegar hundurinn leitar markvisst og ákveðið, þarftu að æfa þær skipanir sem þú notar við veiðar. Þú byrjar t.d. á skipuninni SITT. Þegar hundurinn hefur beygt úti á kanti leitarsvæðisins, stefnir í átt til þín og er t.d. kominn í 20 - 30 m fjarlægð, þá lyftirðu hægri hendi og hrópar SITT og flautar með dómaraflautunni (eitt stutt). Þannig notarðu samtímis öll merkin um að hann eigi að setjast. Þar sem hann situr þá gengurðu til hans, ferð upp að hægri hlið hans og hrósar honum. Síðan stillirðu honum upp fyrir nýja veiðiferð og hvetur hann og sendir svo af stað að nýju, með bendingu og hvatningu (HVAR ER RJÚPA?).
Eftir nokkra leit þá endurtekurðu SITT-skipunina og eykur svo fjarlægðina sem þú gefur honum merki um að setjast í. Ef vel gengur heldurðu óhikað áfram, en ef hann hlýðir stundum en stundum ekki, þarftu að byggja upp að nýju skilyrðislausa hlýðni við skipuninni, með hundinn í taumi þér við hlið. Þú vinnur þig síðan hratt í gegnum æfingarprógrammið á SITT-skipuninni sem þið voruð búnir að æfa áður. Þegar hundurinn leitar markvisst og hlýðir alltaf í fjarlægð, þá leggur þú vaxandi áherslu á að þjálfa á fuglaslóð.
Æfing á standi á fugl
Það eru allmargar aðferðir sem notaðar eru til að þjálfa hunda í því að vinna með veiðibráð; taka stand og benda á fugla, reka þá upp og sækja þá sem felldir eru.
Erlendis eru rjúpnahundar gjarna þjálfaðir á fasana, akurhænur eða kornhænur, sem mikið er veitt af. Þessir fuglar eru að mestum hluta til ræktaðar og sleppt sem ungum í veiðilendum. Þar hafa menn því aðgang að þessum fuglategundum, ásamt dúfum sem einnig eru á stundum notaðar. Í grunnþjálfun rjúpnahunda er ræktuð veiðibráð oft lögð út í sleppibúrum, en búrin er hægt að opna úr fjarlægð og kastast fuglarnir jafnvel í loft upp (1 - 2 m) þar sem þeir taka til vængjanna. Þannig upplifa hundarnir aðstæður sem mjög líkjast raunverulegri veiði, en eigandinn hefur alla möguleika á að stýra því sem gerist.
Rjúpur eru okkar eina veiðibráð hérlendis og hún er enn ekki ræktuð til þjálfunar veiðihunda, enda verður hér að beita öðrum ráðum við þjálfunina. Á æfingum í veiðilendum verður þú því gjarna að hafa langan taum í hundinum og beit þá óspart skipununum SITT (og STAND til að stjórna því sem fram fer), þegar hundurinn finnur rjúpur. Langi taumurinn er þá þín ósýnilega langa hönd, sem grípur inn í.
Æfing á standi í veiðilendu
Þjálfun á standi er best að vinna að hausti, frá því rjúpnaungarnir eru vel fleygir um 20. ágúst og fram í október, þegar þeir hverfa til fjalla vegna hvíta búningsins sem gerir þær svo áberandi í snjólausum lyngmóum. Einnig er mjög gott að þjálfa stand síðari hluta vetrar, frá því um miðjan febrúar þegar dag er farið að lengja og rjúpurnar eru komnar nærri byggð og hafa róast eftir að skotveiðum var hætt. Yfir harðasta vetrartímann og fram til vors eru rjúpurnar gjarnan í lyngmóum og kjarrlendi, þar sem þær éta brum og mjúka sprota af birki- og víðirunnum. Slóðir þeirra sjást þá vel, sem gefur þér færi á að sjá fyrir, ef líkur eru á rjúpum á veiðislóð ykkar.
Þú sendir hundinn af stað og lætur hann leita eins og honum hefur verið kennt. Þar sem þú býst nú við fugli þá hefurðu gjarnan langan grannan taum á hundinum og þú hefur ekki augun af honum. Þegar hann sýnir merki um að rjúpa sé í nánd þá hraðar þú þér í átt til hans, en ert jafnframt tilbúinn til að gefa honum öll stöðvunarmerki sem hann kann. Þar sem þú ætlar að láta hann standa á rjúpuna þá ertu einnig tilbúinn til að gefa NEI (eðaSTAND skipunina). Ef hundurinn æðir að rjúpu án þess að stoppa, standa og benda á hana, þá skiparðu NEI og síðan SITT með tilheyrandi handauppréttingu og dómaraflauti. Þannig tryggirðu að hann setjist þegar fugl flýgur upp. Ef hundurinn hagar sér hinsvegar rétt, þ.e. stendur og bendir á rjúpuna, þá talarðu til hans rólega. Þú gengur síðan ákveðið og fumlaust í átt til hans og leggur áherslu á að nálgast langa tauminn. Allan tímann ertu tilbúinn til að grípa inn í, þ.e. ef hann fer af stað þá skiparðu NEI, en SITT ef rjúpan brestur upp. Eftir að þú nærð taumhaldi, þá dregurðu tauminn til þín á meðan þú nálgast hundinn og hagar málum þannig að þú getir samstundis framfylgt skipuninni SITT ef á þarf að halda.
Þegar ykkur tekst vel upp og þú kemst að hægri hlið hundsins, þar sem hann stendur og rjúpan liggur kyrr, þá hrósarðu honum varlega og talar við hann jafnframt því sem þú lætur hann standa um stund og benda á rjúpuna. Þú krýpur við hlið hans, strýkur eftir hryggnum á honum um leið og þú talar til hans rólega, hrósar honum og styrkir stöðugleika hans á standi. Síðan kastar þú snjóbolta eða smásteini í átt að rjúpunni, fælir hana upp og skipar SITT og lætur hundinn setjast. Þegar að rjúpan er flogin, þá læturðu hundinn sitja um stund, en leiðir hann síðan í burtu þangað sem hann á að halda áfram að leita að veiðibráð. Þú mátt ekki leyfa hundinum að æða í þá átt sem fuglinn flaug og ekki heldur senda hann til að skoða hvar rjúpan var, því þá ertu að gefa honum til kynna að hann megi fara á eftir þeim fuglum sem hann fælir eða rekur upp.
Þjálfun á veiðibráð, er síðasti þátturinn í þjálfun rjúpnahunda. Því þarf að sinna af mikilli alúð. Þú ætlast til að hundurinn þinn standi og bendi á rjúpu, en ef hún hleypur af stað er honum eðlislægt að fylgja henni eftir. Árvekni þín og grunnþjálfun hundsins ræður því hvort þú getur leyft honum að elta í humátt hlaupandi rjúpuna, án þess að eiga á hættu að hann rjúki af stað og fæli hana upp. Í fyrstu er jafnan best að láta hundinn standa kyrran eða jafnvel að láta hann setjast ef rjúpa hleypur af stað. Þú metur það og vegur, hvenær hundurinn er að læðast nær bráð og hvenær hann ætlar að hlaupa hana uppi. Hundurinn má gjarnan fara svo nærri rjúpunni sem kostur er, en án þess þó að hún fljúgi. Það er því betra að láta rjúpnahundinn STANDA eða jafnvel SITJA í góðri fjarlægð frá rjúpu, en að hann fari of nærri henni og fæli hana upp, á meðan þú ert enn utan skotfæris. Þú ætlast reyndar til þess að hundurinn reki ekki upp rjúpu nema með þínu leyfi. Þjálfun í að láta hund reka upp bráð og setjast þegar hún flýgur, er vandasöm og á alls ekki að þjálfa fyrr en hundurinn er alveg öruggur á standi og þú hefur rekið hundrað fugla upp úr standi og látið hann setjast við uppflugið. Það má líka alveg bíða fram yfir það að þú hafir skotið nokkrar rjúpur yfir honum.
Ef þú byrjar of snemma á að láta hundinn reka bráðina upp, er hætt við að hann verði ótryggur á standi, þ.e. hann standi og bíði þar til þú nálgast hann, en rjúki svo og fæli upp rjúpuna. Þegar svo er komið, þá er stutt í að hann æði á eftir öllum rjúpum sem hann finnur og fæli þær upp löngu áður en þú kemst í skotfæri. Þá getur á stundum verið ástæða til að láta hann vera með langa tauminn, þannig að þegar hann tekur stand þá getirðu náð í tauminn til að festa hann tryggilega með góðum hæl sem þú rekur niður í jarðveginn. Síðan nálgast þú hundinn varlega frá hlið, en ef hann rýkur af stað þá grípur ósýnileg hönd í hann og stöðvar harkalega. Hafðu hælinn og tauminn þó þannig gerða að þeir skjótist ekki í hundinn ef hællinn losnar.
Taktu hundinn úr standi og láttu hann svo taka stand að nýju á rjúpuna
Að taka hund úr standi og láta hann svo vinna sig inn í stand að nýju, er ein aðferð sem á stundum gefur góða raun við að festa stand í hundum. Þegar hundurinn hefur staðið um stund í langa taumnum, er hann kallaður inn og því fylgt eftir með því að toga í tauminn og jafnvel draga hundinn úr standi ef hann er þver og stífur. Eftir að hann hefur verið hjá þér um stund, jafnvel eftir að þið hafið tekið nokkra metra gönguhring, er hundurinn látinn fara í lyktina að nýju þar til hann tekur stand á fuglinn aftur, en gott taumhald er haft á honum til að tryggja yfirvegun og ró í vinnu og standi. Þetta má síðan endurtaka 2 - 4 sinnum á sama fuglinn án þess að fæla hann nokkurn tíma upp.
Með þessu er hundinum gefið skýrt til kynna að hann á að hlýða eiganda sínum skilyrðislaust við veiðar, hann á að láta rjúpurnar í friði því hans hlutverk er að finna rjúpur en eigandinn ræður hvenær þær eru látnar fljúga upp. Hver fugl sem finnst er þannig nýttur oft til að æfa stand á. Með þessu er hundinum einnig kennt, að hann á að koma úr standi þegar kallað er á hann en ekki veiða sjálfur. Hann á svo að fara með eiganda sínum, aftur þangað sem hann stóð á rjúpu svo þeir geti saman veitt fuglinn. Þannig lærir hundurinn koma til eiganda síns og veiðifélaga, tilkynna honum um rjúpu, því veiðarnar eru samvinna mans og hunds.
Nýttu þér það er hundurinn fælir upp rjúpu
Þegar rjúpur fælast upp undan hundinum, t.d. þegar hann er í tuga metra fjarlægð frá þér og þú því ekki í aðstöðu til að tryggja standinn, þá máttu ekki reiðast heldur láttu hann setjast og bíða þar til þú kemur til hans. Þegar hundurinn er sestur, þá fylgistu nákvæmlega með rjúpunum, þ.e. hvar þær setjast. Þannig reynirðu að nýta þér það óhapp að hundurinn fældi upp bráð, þ.e. þú veist þá hvar rjúpur er að finna og getur því lagt upp leit og þjálfun, svipað og þú hefðir sett út ræktaða fugla.
Þegar þú nú veist hvar nýsestar rjúpur eru, þá byrjarðu nýja leit með hundinum, en þú sendir hann alls ekki í þá átt sem rjúpurnar flugu. Því þær þurfa að halda sig á nýja staðnum í nokkurn tíma, setja þar mark sitt á landið og þvælast um, því að með tímanum verður lyktin af þeim sterkari á nýja staðnum. Þú leitar því með hundinum í áttina frá rjúpunum, en eftir 10 - 20 mínútur þá snýrðu við og beinir hundinum í átt að þeim stað sem rjúpurnar settust. Þú hefur hundinn með langa tauminn og nú tryggirðu að hundurinn komi að svæðinu upp í vindinn, því það auðveldar honum veiðivinnuna. Þú stýrir yfirferð hans þannig að þú fáir sem ítarlegasta og mesta þjálfun hundsins í fugli, en tryggir jafnframt að þú sért einungis stutt frá taumnum sem hann dregur þegar hann kemur í lyktarsveipa frá rjúpunum. Þá getur þú fylgt eftir skipunum við stand eða uppflug rjúpnanna.
Æfingum með rjúpnahund á villtan fugl heldurðu áfram dag eftir dag, eða helgi eftir helgi allt eftir árstíma. Gleymdu þó aldrei, að það er óhæft að fara með lausan rjúpnahund út á veiðislóð í myrkri og ætlast til að hann rekist þar ekki á neina bráð. Í myrkri sérðu ekki hundinn og þegar hann finnur fugl, stendur og bendir á hann, þá hefurðu ekki hugmynd um það. Eftir nokkra bið gefst unghundur upp og fer í fuglinn og þá er stutt í að hann fari að veiða á eigin spýtur og gleymi allri veiðiþjálfun. Rjúpnahundar ganga í taumi, þegar þeir eru ekki að veiða með þér. Þú mátt aldrei láta rjúpnahund leika sér og hlaupa eftirlitslausan þar sem rjúpna eða hrossagauka er von. Hundurinn verður að vita hvað má og hvað ekki, því sömu reglur verða að gilda í dag, í gær og á morgun.
Stand á rjúpu æfið þið alla ykkar tíð
Fullþjálfaður og reyndur rjúpnahundur þarfa aðhald og eftirlit. Ef hundur byrjar að fæla rjúpur upp vísvitandi, rekur þær upp áður en hann fær merki um slíkt eða eltist við þær, þá verður að grípa inní.
Fyrstu rjúpur skotnar
Eftir markvissa veiðiþjálfun, þegar hundurinn er tryggur á standi og hann sest alltaf þegar rjúpur fljúga upp, þá ferðu með hann til veiða. Vertu byssulaus sjálfur og einbeittu þér að hundinum, en hafðu veiðifélaga þinn með þér sem skyttu.
Mjög mikilvægt er, að veiðar á fyrstu rjúpunum yfir hundinum gangi snurðulaust fyrir sig. Rjúpurnar þurfa að falla við skot og hundurinn má alls ekki hlaupa að þeim þegar þær falla. Þegar hundurinn tekur stand, þá færðu félaga þinn til að fylgja þér að hundinum. Þú ferð upp að hlið hans og festir í hann langan taum, en félagi þinn kemur sér í góða skotstöðu. Þú fælir svo rjúpna upp og lætur hundinn setjast, en félagi þinn skýtur rjúpuna á flugi. Þú tryggir hinsvegar að hundurinn setjist og sitji grafkyrr þó rjúpan falli. Félagi þinn fer svo og sækir rjúpuna. Þetta endurtakið þið við fyrstu 5 - 10 rjúpurnar sem þið veiðið saman.
Ef þú missir hundinn í fyrstu rjúpurnar sem falla, þá vekur það upp mjög kröftuga löngun hans til að rjúka í fugl við skot eða þegar rjúpa fellur. Tryggðu því að fyrstu rjúpurnar falli fyrir skoti og að hundurinn sitji þá grafkyrr, hvort heldur þær eru dauðskotnar eða þær baksast um. Rjúpa, sem baxast um eftir skot, er yfirþyrmandi spennandi fyrir hundinn og fáir þeirra þola að sjá slíkt, án þess að æða af stað. Láttu ekki fyrstu skotin á rjúpu eyðileggja stöðugleika hundsins þíns, sem þú hefur eytt svo miklum tíma í að þjálfa. Njóttu þess að fara til veiða með félaga þínum og hundinum.
Þú getur að vísu hugleitt það að festa hundinn tryggilega við hæl, svo hann geti ekki stokkið fram þegar rjúpa fellur við skot. Þú rekur þá hæl kyrfilega ofan í jarðaveginn, svo að hann haldi örugglega ef hundurinn rýkur af stað þegar rjúpan fellur. Kannski kemstu upp með þetta er þú tryggir stöðugleika hundsins, þegar þú ferð einn til veiða snemma á ykkar veiðiferli.
Þú mátt aldrei skjóta úr byssunni nema þú vitir hvar hundurinn þinn situr stöðugur, þegar rjúpur fljúga upp. Fylgstu með hundinum, stöðvaðu hann um leið og honum dettur í hug að æða af stað og láttu þjálfun hans og öryggi ganga fyrir veiðunum.
Sauðfé og rjúpnahundar
Síðsumars og að hausti er sauðfé gjarna á þeim slóðum sem best er að þjálfa rjúpnahunda, en sumir þeirra eru mjög áhugasamir í að eltast við rollur.
Flott vefur og mikið af góðu efni :)
SvaraEyðaTil hamingju með þetta Allt !!!
Ragnar Sigurjónsson
EyðaHundaáhugamaður.
Takk kærlega fyrir það, þá er markmiðinu náð :)
SvaraEyðakv. Birna og Gummi